1. ÖKUKENNARINN ÞINN
Þegar einstaklingur er orðinn 16 ára gamall er hægt að hefja ökunám. Fyrsta skrefið er að velja ökukennara og útskýrir hann hvernig ökunámi er háttað.
2.NÁMSHEIMILD
Þá er sótt um námsheimild til sýslumanns. Það er hægt að gera rafrænt eða með því að fylla út umsóknareyðublað um ökuskírteini. Umsækjandi þarf að fara með passamynd (35x45mm) á ljósmyndapappír og skal bakgrunnur vera einlitur. Einnig þarf umsækjandi að gefa undirritun. Þegar sýslumaður hefur veitt námsheimildina er hún um leið heimild til próftöku og þá er hægt að byrja kennsluakstur hjá ökukennaranum.
3. VERKLEG KENNSLA & ÖKUSKÓLI 1
Áður en hægt er að byrja æfingaakstur með leiðbeinanda þarf að ljúka að lágmarki 10-12 kennslustundum hjá ökukennara og klára ökuskóla 1. Gott er að byrja ökuskóla 1 eftir 2-4 verklegar kennslustundir og taka ökuskóla 1 samhliða verklegri kennslu. Kostnaður er mismunandi eftir því hvaða ökuskóli er valinn. Flestir kjósa að taka ökuskóla 1 og 2 á netinu.
4.ÆFINGAAKSTUR
Engum má veita leyfi sem leiðbeinanda nema hann:
- hafi náð 24 ára aldri,
- hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. fimm ára reynslu af að aka þannig ökutæki og
- hafi ekki á undangengnum tólf mánuðum verið sviptur ökuleyfi.
Þegar ökukennarinn hefur staðfest að ökunemi sé tilbúinn í æfingaakstur í ökunámsbók geta þeir sem ætla sér að verða leiðbeinendur sótt um það rafrænt. Ef umsækjandi uppfyllir skilyrði fær hann leyfið sent í pósthólf sitt á mínum síðum á island.is. Þá fær ökunemi einnig tilkynningu um að leiðbeinandinn sé búinn að skrá sig. Þessu leyfi er svo hægt að framvísa ef lögregla fer fram á að sjá leyfið.
5. VERKLEG KENNSLA & ÖKUSKÓLI 2
Þegar um það bil 2-3 mánuðir eru eftir í 17 ára aldurinn heldur verkleg kennsla áfram hjá ökukennara en þær eru að minnsta kosti fjórar. Á sama tíma þarf ökunemi að ljúka Ökuskóla 2 sem eru 10 kennslustundir. Þá þarf einnig að sækja nám í Ökuskóla 3 sem eru 2 verklegar kennslustundir sem teljast hluti af verklegu námi og einnig 3 bóklegar kennslustundir.
Heimilt er að taka bóklegt próf 2 mánuðum fyrir 17 ára aldurinn. Eftir að ökunemi hefur klárað verklegar kennslustundir og staðist bóklegt próf sem haldið er af Frumherja má ökuneminn skrá sig í verklegt próf en þó ekki fyrr en 2 vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn.
Þegar ökunemi hefur staðist verklegt próf fær hann útgefið bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í 3.ár. Litið er svo á að gildistími bráðabirgðaökuskírteinis sé einskonar reynslutími og ökunámi sé formlega lokið við útgáfu fullnaðarskírteinis. Hægt er að sækja um fullnaðarskírteini eftir 12 mánuði en þá má ökuneminn ekki hafa fengið refsipunkt í ökuferilsskrá og þá þarf viðkomandi að hafa farið í akstursmat hjá ökukennara.
6. Kostnaður ökunáms
Verklegur ökutími (45.mín) í beinskiptri kennslubifreið 14.500 kr
Akstursmat á kennslubifreið 14.500 kr
Akstursmat á eigin bifreið 12.000 kr
Annar kostnaður:
Ökuskóli 1
7.900 – 13.500 kr (fer eftir ökuskóla)
Ökuskóli 2
7.900 – 13.500 kr (fer eftir ökuskóla)
Ökuskóli 3
44.500 kr
GJALDSKRÁ SÝSLUMANNA
Bráðabirgðaskírteini: 4.300 kr
Endurnýjun, fullnaðarskírteini, nýjir flokkar: 8.600 kr
Endurnýnun fyrir 65 ára og eldri 1.800 kr
Nánar á þessari slóð hér: https://island.is/s/syslumenn/gjaldskra-syslumanna
Gjaldskrá Frumherja má sjá hér: https://www.frumherji.is/images/files/Verdskrar/FRH3620.pdf
Því má gera ráð fyrir að ökunámið með öllum kostnaði sé um 300.000 kr +/-